Monday, May 19, 2008

Viðtal við K.B. eftir Ingvar Gunnarsson frá árinu 1999 í Íslandspósti (útg. í Svíþjóð)



Kristín Bjarnadóttir er fædd á Blönduósi 1948, Önfirðingur í móðurætt en húnvetnsk í föðurætt.

Hún er leikari að mennt og hefur unnið við leiklist í Danmörku, á Íslandi og í Svíþjóð. Síðan 1979 hafa ljóð hennar, smásögur, örverk og frásagnir birst í blöðum og tímaritum.

Því að þitt er landslagið er fyrsta ljóðabók Kristínar og ljóðin í bókinni hafa ekki birst áður á prenti.

--------------------------------------------------------------------------------

Í geimnum leikur sér barn

Hvernig stendur á því að þú réðst í að gefa út ljóðabók?

Af því ég var með handrit sem þurfti að verða bók. Það var ekki hægt að plokka það niður i einstök ljóð og birta hér og þar í blöðum og tímaritum eins og ég hef gert áður með styttri texta. Svo bókarformið var það eina rétta.

Hvernig gekk að fá útgefanda og hvernig er að fá ljóðabækur útgefnar á Íslandi?

Það gekk vel eftir að ég fékk sjálfa mig og Soffíu Auði Birgisdóttur með í dæmið. Yfirleitt eru forlögin í vandræðum með ljóðskáld, bæta sjaldan við höfundum, enda voða lítið á okkur að græða nema heiðurinn þegar best lætur. Fyrir nokkrum árum sýndu útgefendur hjá Mál og menning handritinu áhuga eins og það var þá, en eftir langan tíma og skiptar skoðanir var því hafnað, og ég er þeim þakklát í dag, því það varð til þess að ég hélt áfram að vinna með það. Ég held að kaflinn Flæðarmál sé sá eini sem hefur lifað af nánast óbreyttur. Þegar Soffía Auður las handritið eins og það var orðið fyrir ári síðan ákvað hún að út skildi það, fullyrti að það bara batnaði við hvern lestur og hún bauðst til að koma því á framfæri hjá útgefendum heima og ef það gengi ekki þá gæfum við það bara út sjálfar í nafni hennar lítt reynda og peningalausa forlags Uglur og Ormar. Hún er bókmenntafræðingur, hefur unnið við útgáfu og er virtur penni í bókmenntaheiminum, svo ég vissi að ég gat treyst hennar mati. Hún var þá að ritstýra greinasafninu Kynlegir kvistir, tíndir til heiðurs Dagnýju Kristjánsdóttur fimmtugri sem hún gaf út í samvinnu við Háskólaútgáfuna, undir útgáfunafninu Uglur og ormar, svo ég taldi mig vel heiðraða með ljóðabók hjá sama forlagi. Það kom því aldrei til þess að við leituðum til annarra útgefenda, fannst að bókin ætti endilega að koma út á þessari öld. Og það gerði hún. Alveg mátulega til að geta kynnt sig á Menningarnótt Reykjavíkur. Í Hlaðvarpanum og nóttinni allri. Við vorum fjórar saman í upplestrarherferð, þar á meðal ung skáldkona að nafni Sigurbjörg Þrastardóttir með sína fyrstu ljóðabók, Blálogaland, Elísabet Jökuls, sem er orðin æðivel sjóuð í upplestri við ólíkar aðstæður og Soffía Auður sem fararstjóri og kynnir.

Hvernig voru móttökurnar?

Ég heyrði það sagt fyrir löngu að örugglega væri hvergi eins skemmtilegt að vera skáld og í Reykjavík. Og núna trúi ég því. En það eru skemmtilegheit sem ekki er hægt að skipuleggja. Bara þramma sig inn í hlutverkið og segja við sjálfa sig: nú ertu búin að skrifa, bókinni verður ekki breytt, svo gjörðu svo vel og vertu skáld, fáðu þér hæfilegan sjónauka og ...

Sjón tók á móti fyrsta eintakinu. Keypti það í hvelli alveg óbeðinn í Bankastrætinu daginn sem bókin kom úr prentun. Elísabet Jökulsdóttir tók á móti því næsta þegar það sveif áleiðis yfir Ingólfsstræti frá svölunum á Sólon Íslandus og var nærri orðið fyrir bíl þar sem það lenti.

Og við bjuggum til gjörning. Útgáfugjörning sem var spunnin á staðnum og endaði með ljóðaeinvígi á miðjum gatnamótum. Það var óskaplega fallegur klæðskeri sem spratt upp frá síðdegiskaffinu og sviðsetti ljóðaeinvígið og fullyrti að það væri hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Bílarnir gjörðu svo vel að staðnæmast á grænu ljósi útaf ljóðum á veginum.

Kannski varstu að meina móttökurnar í fjölmiðlum. Þær voru fínar. Þú hefur séð blaðadóma, er það ekki? Í útvarpsþættinum Víðsjá var flott umfjöllun þar sem Úlfhildur Dagsdóttir gerði fróðlega úttekt á ljóðaumræðu samtímans útfrá erindi Guðmundar Andra Thorssonar frá því í vor um stöðu ljóðsins sem hann áleit ekki tiltakanlega góða.

Þar var tekið upp vandamál varðandi sjálfhverfni ljóða og eins hvernig ljóðræn tjáning hefði verið að færa sig frá ljóðforminu yfir í aðra miðla eins og minningargreinar og dagbækur. Það þýðir að nýjar kröfur eru gerðar til ljóðformsins, eigi það að lifa af. Og mér fannst dálítið hnyttið að fá að vita hvernig það sem ég hef verið að fást við er skylt því sem Sjón var að fást við með Ljóðabókinni Myrkar fígúrur og Sindri Freysson með bókinni Harði Kjarninn sem kom líka út í ár.

Og skyldleikinn liggur í þessari viðleitni að skapa heildarmynd, frá útliti til innihalds eða frá upphafi til enda. Og hún lagði áherslu á eitt sem ég varð ekki vör við í blaðadómum, það hvernig raddir ljóðmælanda og höfundar eru felldar saman á meðvitaðan hátt í Því að þitt er landslagið. Einmitt í ljósi þess að "krónísk írónía póstmódernismans" einsog krefst þess að allar okkar hugmyndir um einlægni séu færðar í ný form, eða þá að hin nýju form bjóði upp á endurupplifun einlægninnar, eins og hún sagði og skilgreindi einlægnina nánast sem meðvitaðan naívisma.

Mörgum þykir byggingin smá laus í reipunum hjá mér en það var vísvitandi að njörva hana ekki niður, heldur gefa lesandanum svolítið lausan tauminn. Stundum hvarflaði reyndar að mér hvort bara útlands-Íslendingar myndu skilja svona sögu, þessa tegund af heimþrá og það að þurfa að skapa sinn veruleika einsog frá byrjun með ósýnilegu veganesti sem býr í móðurmálinu. En þá hef ég líklega gleymt því hvað Íslendingar eru mikið ferðafólk.

Í umfjöllun í sjónvarpsþættinum Mósaik var líka réttilega bent á að í lokakaflanum skýrðust persónurnar og þá væri hægt að byrja aftur frá byrjun og fá nýja sögu. Þar þótti bókin minna á Kaupmannahafnarskáldin sem skrifuðu heim. Og mér þótti sérkennilega vænt um þegar Skafti Þ. Halldórsson skrifar að umfram allt sé fólgin í ljóðsögunni tilvistarleg leit „að sæluhúsi í höfðinu“. Því ég man þegar ég var að læra þetta orð „sæluhús“. Heyri alltaf rödd mömmu í því. Sá fyrir mér sælu sem hana hlaut að dreyma um, þóttist vita hvað „sæla“ þýddi og vissi að þannig hús voru bara fyrir fólk á ferðalagi í óbyggðum. Svo þegar ég loksins sá slíkt hús í alvörunni þótti mér það undarlega nöturlegur kofi. Hún hlaut að hafa verið að tala um eitthvað annað! Mamma var að vestan, frá Tröð í Önundarfirði og þangað kom ég aldrei sem krakki. Það þótti „óþarfi“ að ferðast.

Ævintýri tengd Íslandsför?

Svo gekk ég inn í landslagið. Það var náungi í blokkinni hjá systur minni sem var svona ljóðrænn þegar ég bankaði uppá. Hann var sjálfur að pakka sér og fjölskydunni saman í septemberbyrjun til að flytja á á hestabúgarð í Bandaríkjunum. Ég sagði honum frá gönguferð um Kjalveg hinn forna og norður á Hveravelli í sumar og þá horfði hann svona á bókina og svo á mig og sagði: Og svo gekkstu bara inn í landslagið. Og það var satt hjá honum. Það var mjög góð ferð með Ferðafélaginu og systkinum mínum. Bara ganga, landslag og samferðafólk.

En það var svolítið skondið, skömmu eftir að bókin var komin í helstu búðirnar, þá frétti ég að hún hefði hvergi sést í Káunum í einni þeirra heldur verið í Vöffunum, sem þýddi að Vera frá Tungu var talin höfundurinn. Það er kannski ekki svo vitlaust hugsað. Margir spyrja hver hún sé þessi Vera frá Tungu, eða jafnvel frá hvaða Tungu og þá er svarið auðvitað: Frá íslensku. Hún er alkomin úr íslenskri tungu og á vissan hátt finnst mér hún vera móðurmálið persónugert. Hún kom gefins með tungumálinu jafn semma og farið var að kynna fyrir mér heiminn, byggðan á goðsögnum, ævintýrum og allskonar skáldskap.

Hvað þú hefur fengist við áður?

Ég fékkst við leiklist í nærri 20 ár og þar áður vann ég hjá Sölusambandi íslenskra fiskiframleiðenda, svona skrifstofu- og búðarstörf frá því ég var 17 ára. Þá kom ég til Reykjavíkur í fyrsta sinn, ekki gangandi eins og faðir minn og bróðir hans höfðu gert á leið út í heim uppúr 1920, heldur með Norðurleið úr Húnavatnssýslunni.

Ég fór reyndar á sjóinn áður en veturinn var liðinn, réði mig sem þernu á Gullfoss. Þannig komst ég í mínar fyrstu utanlandsferðir. Og svo í vist til Englands vorið sem ég varð 18. En ljóð birtust ekki eftir mig fyrr en ég var þrítug, búin að vera í Danmörku í sjö ár og komin heim í verkefni við Þjóðleikhúsið.

Ég lærði leiklist í Óðinsvéum, eini útlendingurinn þar til Stina Ekblad kom ári seinna. Hún var sú sem fyrst kynnti Edith Södergran fyrir mér og við lékum saman þegar ég útskrifaðist 1974. Á Íslandsárunum mínum 1978 - 1985 réði ég mig sem blaðakonu eitt sumarið út á það að ég væri skáld og síðan hef ég haldið áfram að skrifa greinar af og til.

Háskólanám vissi ég ekki hvað var fyrr en eftir að ég kom til Svíþjóðar og ákvað að læra betur að lesa og skrifa. Skellti mér í bókmenntir og heimspeki.

Hver ert þú?

Hver ég er! Þetta var stór spurning. Bíddu ég skal reyna að kyngja henni. Kannski meinarðu hvar ég fæddist og ólst upp og svona... en af því þú spyrð einmitt núna þá skulum við segja að ég sé þvottakona með kvef því ég er að þvo þvott einmitt núna, skrapp bara frá. Til að vera skáld í viðtali hjá þér. Er ég það ekki? Og bráðum þarf ég í heimsókn upp á spítala og þá verð ég gestur eða vinkona, vonandi … Ég held ég sé að vissu leiti sú sem þér sýnist hverju sinni, svona frá tilvistarlegu sjónarmiði og útfrá þeirri hugsun að manneskjan er aldrei ein, hún þarf að koma í ljós til að vera einhver. Skilurðu, ég get ekki verið fullkomlega minn eigin höfundur! Það er nú málið og meinið.

En ég er auðvitað bæði mín eigin saga og líka annarra, sem er efni í margar ævisögur. Einhverja þeirra á ég örugglega eftir að skrifa. Og ef ég sé hest með hófa sem snúa aftur, þá verð ég samstundis sú sem þarf að skreppa á bak, alveg öfugt við smalastúlku í minni sveit sem fann þannig hest við Hópið og bjargaði sér með því þjóðráði að segjast ekki nenna á bak.

Af hverju í Svíþjóð?

Af því hér vaxa tré á klettunum. Ég kom ekki hingað þess vegna en varð kannski svona lengi um kyrrt þess vegna. Mér fannst það svo heillandi. Ætlaði bara að vera í eitt ár. Og svo er þetta nú einu sinni Strindbergs-landið, Viktoríu Benediktsson-landið, Karin Boye-landið og Selmu Lagerlöf-landið… Og styttra til Danmörku héðan en frá Íslandi. Ég hef eignast þrjú heimalönd og heimamál og helst vil ég vera í öllum þrem samtímis.

Hvað er framundan?

Árþúsundamót. Ég er alltaf hrædd við áramót, þoli ekki að vera nálægt flugeldum. Í fyrra slapp ég naumlega á götum New Orleans af því fólk lék sér mjög fimlega að eldinum. Samt dó einn í veislu úti á Missisippi. Svo ég ætla heim núna að geyma mig annað hvort í Sumarhöll hjá vinkonu minni utan við Reykjavík eða við sjóinn hjá systur minni norður í Húnavatnssýslu.

Annars veit ég ekkert hvað er framundan. Mér finnst ég þurfa að skrifa nokkur tangóljóð, en fyrst þarf ég að dansa svolítið. Þó við séum ekki að skrifa með pennanum eða á tölvuskjáinn, þá skrifum við á vissan hátt með því sem við gerum. Kannski leikhúsið hafi kennt mér að hugsa þannig. Og í argentínskum tangó skrifar maður sérstaklega með fótunum. Það er enginn leikur að koma þeirri skrift í orð, eins og það er samt heillandi samtal á gólfinu.

Ingvar Gunnarsson


This page is powered by Blogger. Isn't yours?