Saturday, October 06, 2007






Bókaverðir og sæluríkisprinsessur eða “Allt sem þú þarft kemur til þín”

Á Bókastefnu er allt þúsund og eitthvað. Ég snýst í hringi, bakka, breyti um stefnu. Sé bækur til að muna með, bækur til að skoða heiminn með, bækur til að finna fólk með. Nýjar bækur fylgja mér heim, sumar áritaðar. Bókasafn Næturinnar (The Library at Night) eftir Alberto Manguel er ein þeirra, menningarsagnfræði í leikandi léttum stíl og mikill brunnur. Hún hefst á kafla um bókasafnið sem goðsögn. Manguel – heimsþekktur fyrir A history of Reading frá 1996 - er fæddur í Buenos Aires, ólst að hluta til upp í Ísrael þar sem faðir hans var diplomat, bjó lengi í Kanada en flutti loks til Frakklands með sitt persónulega bókasafn, um 35 þúsund bækur. Hann skemmti gestum í þrjá stundarfjórðunga með sögum um bókaverði á borð við Borges og sjálfan sig; talaði um bækur skráðar og ímyndaðar, bækur sem móta heimsmyndir okkar og sjálfsmyndir. Verk hans hugleiðir uppbyggingu bókasafna og bókasöfn hugans, safnið sem vinnustað, eyju, gleymsku, heimili.

"í ljósinu lesum við það sem aðrir hafa skapað í myrkrinu sköpum við eigin sögur" skrifar hann og segir, er með margskonar vísanir í nóttina. Segist elska að handfjatla bækur, hafa þær með kaffinu fara með þær í rúmið ...

Ég fann höfundinn á gangi af þykjustutilviljun, spurði hvort hann ætti verk íslenskra höfunda í safninu. “Já, talsvert, mætti vera meira. Þú meinar nútímabókmenntir er það ekki? Íslendingasögurnar á ég að sjálfsögðu, það er ekki hægt annað haldi maður uppá Borges.”

Áður en við lendum í fólksfjöldanum hjá sænska útgefenda Alberto Manguels, sem er Ordfront, næ ég að ljóstra upp áhuga mínum á tangó. Hann tekur strax fram bók úr hillu hugans og segir frá Edgardo Cozarinsky, sem nýlega skrifaði bók um næturlífið á æskuárum tangósins í byrjun síðustu aldar. The Moldavian Pimp hetir bókin í enskri þýðingu og mér skilst raunar að hún fjalli um þeirra tíma traffiking fremur en um tangó. Mér líst betur á Manguels eigin bækur, um bókasöfn og um listina að lesa þar sem hann ferðast þúsundir ára aftur í tímann ... Og hann skrifar: To Kristin - a tango lover

Í titli bókarinnar The Library at Night felst líka vísun í ljóð “poema de los dones” sem Borges orti þegar honum blindum manninum var falin yfirumsjón með þjóðarbókasafninu í Buenos Aires. Skáldið talar þar um íróníu Guðs, sem felur honum hvorutveggja í senn: bækur og myrkur. Og það er til mynd af Jorge Luis Borges þar sem hann klemmir saman augun til að heyra betur orð ósýnilegs lesara. Einn þeirra var Alberto Manguel sem fékk ungur þann starfa að lesa upphátt fyrir hann.

Alberto Manguel á Bókastefnunni í Gautaborg 2007 , ljósmynd Kristín Bjarnadóttir


*

Kærkomin ljóðabók birtist meðal annarra gersema ofan af Íslandi og fylgir mér heim, ljóð Ingunnar Snædal, uppseld þegar ég var á Íslandi seinast.

“Allt sem þú þarft kemur til þín

í einhverskonar dulargerfi.

Kannistu við það

verður það þitt.”

Segir í ljóði eftir Doris Kareva, ljóðadrottningu í Eistlandi.

Við ljóðstofuna Rum för Poesi beið röð ljóðabóka eftir eistneska höfunda, allt frá Doris Kareva (f.1958) og Jürgen Rooste (f.1979) til Marie Under (1883 – 1980). Ellerströms forlag gefur út á sænsku bækur eftir níu eistnesk skáld útaf þema stefnunnar - eistneskar bókmenntir - og kynnir þau öll í seinasta hefti tímaritisins Lyrikvännen ásamt fleiri skáldum, en Jonas Ellerström er einnig ábyrgur útgefandi tímaritsins. Og líklega er Rum för Poesi viðamesta ljóðahátíð landsins, nett innbökuð í Bókastefnuna: c.a. 70 skáld flytja ljóð sín á sviðinu í fjögurra daga törn.

Ulf Karl Olof Nilsson, nýkrýndur rithöfundur ársins af Göteborgs-Posten, reyndist áhrifamikill flytjandi og örlátur, las langt óbirt ljóð um margslungið barn og sorg sem saknar bernsku. Loks magnaða romsu, um ljóðmælanda fyrir utan hinar og þessar stofnanir, grátandi. Taktbundið og grátfyndið í flutningi höfundar sem gegnir ábyrgðarhlutverkum sem takmarka grát, er starfandi sálfræðingur, tveggja barna faðir og í ritstjórn menningartímaritanna Glenta, OEI og eins sálfræðirits. Glænýja ljóðabók hans Synopsis, í kolsvörtu bandi fann ég á litlu gáfulegu útgáfunni Brutus Östlings Symposion . http://www.symposion.se/



Ulf Karl Olof Nilsson 2007, ljósmmynd Kristín Bjarnadóttir


*

Höfundar littlu forlaganna vekja athygli mína. Tilviljun? Kabusa er frekar lítið forlag en löngu frægt fyrir stóra íslenska höfunda. Sekwa nefnist nýtt lítið forlag með fókus á bækur eftir ungar konur sem skrifa á frönsku. Ein þeirra er Léonora Miano, fædd 1973 í Kamerun en býr í París. L´intérieur de la nuit, er fyrsta skáldsagan hennar, á sænsku: Nattens inre (2007). Myrk saga úr skálduðu þorpi einhverstaðar í Miðafríku.Vestrænum hugarheimi er stefnt gegn hugarheimi þorpsbúa í leit að sjálfsmynd. Bókin er þegar þýdd á níu tungumál, verðlaunuð í Kamerun og notuð í skólum. Einmitt þar hefur bókin valdið heitari ummræðum en Léonora Miano hefur orðið vör við í öðrum löndum. “Nei ekki heift, en fólki fannst sárt að taka til sín söguna”, segir hún og skrifar heilt ljóð á titilsíðuna í mínu eintaki.


Léonora Miano á Bókastefnu 2007, ljósmynd Kristín Bjarnadóttir

















*


Normal förlag er nýleg og hetróvæn hinseginútgáfa eða “Queerforlag” með verk m.a. eftir Tasso Stafilidis, leikara og fyrrverandi þingmann, prófessor Tiinu Rosenberg, en yfirlýst markmið þeirra er að gefa út bækur handa öllum sem ekki líta á gagnkynhneigð sem lífsnauðsyn. Fleiri Normalstjörnur létu ljós sitt skína á stefnunni, svo sem Bigitta Stenberg með áður óbirt æskuverk skrifað 1951, þegar sögur þurftu helst að enda illa til að fást útgefnar væri ástin samkynhneigð. Líka fyrrverandi sæluríkisprinsessa (folkhemsprinsessa) eins og hún var kölluð, Ann-Charlotte Alverfors. Hún sló í gegn á áttunda áratugnum með sögum um stúlkuna Gertrud 14 ára unglingsstulku í Smálöndum sem amman kallar Sparvöga. Og bókin um Sparvöga (1975) varð tríólógía sem varð sjónvarpsþáttaröð. Nú kemur út sjálfsæfisögulega “myndabókin” (skilgreining höfundar) - Vem skal trösta Gösta? Eða Hver á að hugga Gústa? - þar sem Alverfos lýsir lífinu sem rithöfundur og móðir frá sextán ára aldri. Hvaða Gösta? Jú, þeir sem þekkja bronsstyttuna Gösta sígrátandi í Altonaparken í Málmey, giska rétt. Sænska þunglyndið, heitir styttan og er staðsett fyrir neðan svefnherbergisglugga skáldkonunar. Hún heyrði þus þeirra sem viðhalda hringrás táranna á vegum borgarinnar og kváðu grátinn hans Gösta kosta borgarbúa heilar 60 þúsund krónur á ári (ca hálfa milljón ísl.). Listaverkið er eftir Marie-Louse Ekman.

Ann-Charlotte Alverfors segir það að skrifa vera félagslegan gjörning og reiðina skapandi eldsneyti. Hún skrifar af jarðbundinni kímnigáfu sem naut sín vel þegar Stina Ekblad kom og flutti vænan kafla, úr bókinni sem kemur út nú í október.

Væri sænska sæluríkið ennþá til, hver væri þá prinsessan í dag? Kannski Åsa Linderberg (f.1968), beittur menningarpenni með sína fyrstu sögu: Mig äger ingen (Atlas forlag 2007), um árin með föður sínum, verkamanni sem drakk. Hún vekur athygli og heift.

Kristín Bjarnadóttir

kb.lyng@gmail.com


Comments: Post a Comment



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?